Áskorun og ævintýri – útileiksvæði í mótun

Í janúar 2013 hófst þróunarverkefnið Áskorun og ævintýri göngu sína í Tjarnarseli. Hugmyndin kviknaði eftir að Inga María leikskólastjóri hafði farið á alþjóðlega ráðstefnu með sömu yfirskrift sem haldin var við Menntavísindasvið HÍ í maí 2012. Undirbúningur verkefnisins hófst í nóvember sama ár en þá fékk hún George Hollanders og Sarka Mrnakova,sem stýrðu ráðstefnunni, til liðs við leikskólann en þau reka fyrirtækið SAGE gardens ehf, til að vera ráðgjafar leikskólans í verkefninu.

Markmið verkefnisins er að breyta útileiksvæði Tjarnarsels og skapa öruggt, náttúrulegt umhverfi sem byggir á áskorun og ævintýrum og hvetur ÖLL börn til leiks, rannsókna, sköpunar og hreyfingar.

Jafnræði og lýðræði verður gætt

Með virkri þátttöku barna, foreldra og kennara er ætlunin að breyta útileiksvæði leikskólans, og skapa náttúrulegt umhverfi fyrir börn til að rækta og þroska hæfileika og áhugsvið sín.

Jafnræði verður gætt í þróunarferlinu og fá allir þátttakendur verkefnisins tækifæri til að koma á framfæri, sjónarmiðum og hugmyndum sínum varðandi útileiksvæði leikskólans. Lögð verður áhersla að virkja börnin til að hafa áhrif á náms- og starfsumhverfi sitt.

Umfang verkefnis: janúar 2013 til desember 2014 og tengist það nýrri aðalnámskrá leikskóla (2011) s.s. heilbrigði og hollustu, sköpun og stærðfræði.
Foreldrar geta haft áhrif m.a. með því að taka þátt í hugmyndavinnusmiðju í salnum sem þeir móta ásamt Tjarnarselsbörnunum í apríl og síðan í framkvæmd á útileiksvæðinu í maí/júní.

Áskoranir og ævintýri© 2016 - 2019 Karellen