Tjarnarsel gerðist þátttakandi í verkefninu HEILSUEFLANDI LEIKSKÓLI á vegum Embættis landlæknis haustið 2017. Lögð er áhersla á að markmið verkefnisins birtist í framkvæmd í öllu daglega starfi og er hugað að andlegri, félagslegri og líkamlegri velferð barna og starfsmanna. Heilsuteymi Tjarnarsels sér um að markmiðum verkefnisins séu fylgt eftir.

Á starfsárinu 2017-2018 var lögð áhersla á að ná markmiðum verkefnisins í hreyfingu, mataræði og geðrækt. Samkvæmt gátlistum Embættis landlæknis, sem nýttir voru til að sjá hverju var áorkað og hvað þurfti að bæta sýndu niðurstöður að 76% er komið til framkvæmda í þættinum hreyfing, 91% í mataræði og 92% í geðrækt. Áfram verður lögð áhersla á þessa þætti starfsárið 2018-2019 og þættinum starfsfólk bætt við.

Ýmsar birtingarmyndir má finna í leikskólanum eftir fyrsta starfsárið. Aðgengi barna að vatni jókst með nýjum drykkjarfonti sem staðsettur er í álmu eldri nemenda og vatnsglös og vatnskönnur eru aðgengilegar börnunum á yngri deildunum. Vatnsvél var sett á kaffistofu starfsfólks. Matseðlar voru skoðaðir og niðurstöður sýndu að ráðlagður dagskammtur af grænmeti var ekki nægilegur. Til að bæta úr því var ákveðið að auka fjölbreytni í grænmetis- og kryddræktuninni í garði leikskólans sem er góð leið til að fá börn til að smakka mismunandi tegundir af grænmeti og kryddjurtum. Einnig var aukið við framboð og fjölbreytni grænmetis í hádegisverði.

Í heilsuteymi Tjarnarsels sitja Margrét Kolbeinsdóttir deildarstjóri, Áslaug Unadóttir leikskólakennari, Guðrún Gylfadóttir háskólamenntaður starfsmaður og Inga María Ingvarsdóttir verkefnastjóri yfir heilsueflingunni.

© 2016 - 2019 Karellen