news

Bók að heiman - bókin heim

23. 04. 2021

Nú þegar sumarið er handan við hornið er skemmtilega Orðaspjallsverkefnið Bók að heiman - Bókin heim, komið á góða siglingu hjá okkur. Verkefnið miðar að því að auka orðaforða og hlustunarskilning barna.

Þetta verkefni er samstarfsverkefni á milli heimila og skóla. Á yngri deildunum skiptast börnin á að koma með bók að heiman, en á eldri deildunum fara börnin með bók úr leikskólanum heim sem þau lesa með foreldrum sínum. Foreldrar eru beðnir um að lesa bókina með barni sínu og leita eftir skemmtilegu orði/orðum í henni til að spjalla um.

Daginn eftir kemur barnið með bókina aftur í leikskólann, segir frá henni og orðunum sem vöktu áhuga þeirra. Kennarar láta foreldra vita þegar komið er að þeirra barni að velja sér bók til að fara með heim.

Það er afar ánægjulegt að upplifa áhuga barnanna á þessu verkefni og sérlega skemmtilegt að fylgjast með hversu klókir foreldrarnir eru aðstoða börn sín við að veiða góð og gagnleg orð til að bæta í orðaforðasafnið sitt.

Orðin skrifa fjölskyldurnar á svokölluð orðasíli sem við fóðrum sísvöngu hvalastelpuna okkar hana Báru með. Á meðfylgjandi mynd sjáum við gagnleg orð sem einn 4 ára drengurinn okkar kom með að heiman í dag.

Við óskum ykkur gleðilegs sumars með ljóði skáldsins Þórarins Eldjárns sem hefur svo sannarlega lagt sín lóð á vogarskálar aukins orðaforða landsmanna.

Sumardagurinn bókarinnar ☀️

Sælt er að lifa sumardaginn fyrsta

við sæinn ysta og nyrsta.

Með bók í hönd við höldum út í vorið,

hugurinn greikkar sporið,

þíðan eflir þorið.

Hugurinn stefnir ofar, innar,

út á við um leið.

Sól og lestur saman tvinnar

sumardagur bókarinnar,

gatan verður greið.

© 2016 - 2021 Karellen