news

Orkulosun í skammdeginu

05. 11. 2019

Í Tjarnarseli búum við svo vel að eiga yndislegan garð þökk sé duglegu sjálfboðaliðunum okkar sem unnið hafa að umbótum hans og viðhaldi síðastliðin sex sumur.

Vettvangsferðir hafa skipað stóran sess í starfi leikskólans í mörg ár og mikið útinám farið fram í þeim ferðum.

Ákveðið var í haust að nýta garðinn okkar enn betur en gert hefur verið og setja aukinn kraft í útinámið sem á sér stað þar. Nýlegar rannsóknir staðfesta enn frekar það sem flestir landsmenn þekkja af eigin raun, að útivera og hreyfing hefur mjög jákvæð áhrif á líðan okkar og ennfremur á starfsemi heilans. Tjarnarsel fékk styrk úr Lýðheilsusjóði til að efla hreyfinguna útivið á starfsárinu. Í framhaldi af því var Sabína S. Halldórsdóttir íþrótta- og heilsufræðingur fenginn til að vera með ráðgjöf til kennara skólans um hvernig vinna megi enn markvissara með hreyfinguna úti. Október var jafnvægismánuður sem tekinn var með trompi hjá börnum og kennurum. Nóvember og desember verða tileinkaðir orkulosun en þá mánuði verður lögð áhersla á þol og kraft sem verður heldur betur hressandi í skammdeginu.

© 2016 - 2020 Karellen