Karellen

Hvað er Orðaspjall?

Í Tjarnarseli er unnið með aðferðina Orðaspjall sem er leið til að efla orðaforða, hlustunarskilning og máltjáningu barna.

Fjölmargar rannsóknir sýna að orðaforðinn er undirstaða lesskilnings og að hann tengist beint eða óbeint bókstaflega öllu sem varðar læsi á öllum aldri. Einnig hefur verið sýnt fram á í fjölda rannsókna að orðaforði barna á leikskólaárunum spáir fyrir um lesskilning og námsárangur þeirra langt fram í tímann. Þess vegna er rík áhersla lögð á að efla orðaforða barnanna í Tjarnarseli.

Aðferðin hefur verið þróuð í Tjarnarseli frá árinu 2009 og skipar stóran sess í öllu mál og læsisstarfi leikskólans en það hófst með þróunarverkefninu Bók í hönd og þér halda engin bönd. Aðferðin hefur breiðst út og er notuð í flestum leikskólum Reykjanesbæjar og víða um land.

Barnabækur eru aðalkveikjan að því að vinna og leika með orð samkvæmt Orðaspjallsaðferðinni og fléttast hún inn í allt starfið með einum eða öðrum hætti. Tækifærin eru allt um kring og möguleikar til að læra ný og spennandi orð eru óþrjótandi. Orðin leynast allstaðar: í vettvangsferðum,listsköpun,hlutverkaleik og í samræðum við börnin um allt milli himins og jarðar.

Leikskólabörn læra í gegnum leik og því er mikil áhersla lögð á orðaleiki og leikræna tjáningu í Orðaspjallinu. Kennarinn velur bók til að lesa með börnunum og orð úr henni til að kenna, ræða um og leika með. Hann staldrar við orðið þegar að því kemur í sögunni og útskýrir merkingu þess. Að lestri loknum er rætt frekar um orðið og börnin hvött til að segja orðið, klappa atkvæðin í orðinu, leika með orðið eða hvað eina sem frjóum kennurum og börnum dettur í hug að gera.

Inn á hverri deild í leikskólanum er hvalastelpan Bára. Hún safnar saman orðunum sem við höfum lært í Orðaspjallinu og rituð eru á svokölluð orðasíli. Á Báru geta bæði kennarar og foreldrar séð hvaða orð er verið að leggja áherslu á hverju sinni.

Kynningarbæklingur um orðaspjall.


© 2016 - 2023 Karellen