Hvað er eTwinning?
eTwinning er aðgengilegt skólasamfélag á netinu þar sem hægt er að komast í samband við evrópska kennara og skólafólk, taka þátt í einföldum samstarfsverkefnum og sækja sér endurmenntun á vinnustofum og námskeiðum, svo nokkuð sé nefnt, allt með hjálp upplýsingatækni.
Hver kennari eða skólastarfsmaður skráir sig sem einstaklingur og engin takmörk eru á því hve margir frá sama skóla geta verið með. Skráning er einföld og fer fram á Evrópuvef eTwinning. Í hverju landi er landskrifstofa sem styður þátttakendur endurgjaldslaust. Hér á landi gegnir Rannís því hlutverki. Einnig er hægt að leita til eTwinning sendiherra, starfandi kennara með reynslu af eTwinning.
eTwinning samstarf getur auðgað skólastarfið á margan hátt, víkkað sjóndeildarhring bæði nemenda og kennara og aukið færni þeirra á ýmsa vegu. eTwinning eflir þannig starfsþróun kennara og frumkvæði og áhuga nemenda.
eTwinning er hluti af menntaáætlun ESB (Erasmus+) og var hleypt af stokkunum árið 2005.
eTwinning í Tjarnarseli
Tjarnarsel hóf þátttöku í eTwinning rafrænu samstarfsverkefni í janúar 2019 með leikskólunum Gefnarborg í Garði og Krílakoti á Dalvík.
Með eTwinning má segja að Tjarnarseli opnist nýr heimur sem býður upp á óteljandi skemmtilega möguleika. eTwinning verkefni geta verið einföld og staðið yfir í einn dag eða flóknari og staðið lengur yfir. Skólinn skráir sig inn á eTwinnnig svæði á netinu og síðan skrá kennarar sig inn. Á svæðinu er hægt að leita eftir samstarfsaðilum um alla Evrópu. Byrjað verður hægt og rólega og verða næstu mánuðir notaðir til að vinna með samstarfskólunum að einföldum verkefnum tengdum útinámi og vettvangsferðum. Ef vel gengur verður leitað eftir samstarfi við skóla í Tékklandi á næsta skólaári. Tengiliðir okkar í eTwinning eru kennararnir Björk og Inga Sif.