Hugmyndafræði Tjarnarsels
Hugmyndafræði Tjarnarsels byggir að hluta til á kenningum bandaríska heimspekingsins og sálfræðingsins John Dewey (1859-1952) sem sagði að börn lærðu mest á því að byggja ofaná fyrri reynslu sína og öðluðust þannig óbeina menntun, að félagslegar athafnir barnsins væru lykillinn að öllum námsgreinum. Efniviður sem skólar bjóða börnum upp á taldi Dewey að ætti að tengjast umhverfi þeirra, hafa þýðingu fyrir þarfir, væntingar, áhugamál og hugsanir barnsins. Dewey sá skólann fyrir sér sem smækkaða mynd af samfélaginu. Í skólasamfélagi væri lýðræði haft að leiðarljósi, þar sem ólíkir einstaklingar starfi saman og hver um sig leggi sitt af mörkum, þar sem nemendum væri ætlað að vinna saman að viðfangsefnum sem hæfðu þroska þeirra og getu. Berjast yrði gegn þeirri hugsun að skólinn væri undirbúningur undir lífið frekar en lífið sjálft. Hann lagði áherslu á að barnið væri upptekið af því sem væri að gerast hér og nú. Það væri fyrst og fremst borgari samtímans en ekki framtíðarinnar (Kristín Dýrfjörð 2006, Jón Ólafsson, 2002). Gefa ætti nemendum tækifæri til að kynnast lýðræðinu í raun og leggja áherslu að efla eiginleika hjá börnum sem renni stoðum undir lýðræðislegt.
Í kjölfar þessara hugmynda urðu til hans frægustu einkunnarorð, learning by doing sem hefur verið útlagt að læra í verki. Dewey lagði áherslu á að þekkingarleit væri verklegt ferli, þar sem nám og þekkingarleit væru nátengd hlyti nám að vera slíkt ferli. Orðasambandið learning by doing-að læra í verki, merkir því að læra eitthvað, að tileinka sér námsefni eða öðlast getu í ákveðinni grein (Dewey 1933/2000a, 1938/2000b, Cuffaro, 1995, Ólafur Páll Jónsson, 2006).
Hugmyndafræðin byggir á kenningum fleiri fræðimanna og má þar helsta telja Lev Vygotsky og Ingrid Pramling. Vygotsky setti fram þrjá þætti sem gera leikinn mikilvægan fyrir barnið. Í fyrsta lagi sé hann leið barnsins til hlutbundinnar hugsunar. Í öðru lagi hjálpi leikurinn barninu til að átta sig á félagslegum reglum sem ríkja í umhverfinu og í þriðja og síðasta lagi felist mikil sjálfstjórn í leiknum. Vygotsky lagði einnig áherslu á mikilvægi fullorðinna og eldri barna í námi þeirra yngri og taldi að vitrænn þroski örvaðist í samskiptum við þroskaðri einstaklinga (Dale, 1997). Hugmyndafræði Ingrid Pramling byggist á því að kennarar vinni meðvitað og hafi áhrif á þróun þekkingar og getu barna á sem fjölbreyttastan hátt. Hún leggur áherslu á að afstaða kennara til barna skipti máli og að þeir komi til móts við barnið þar sem það er statt (Pramling, 2006). Við útinám og vettvangsferðir er horft til hugmynda Josep Cornell sem er þekktur fyrir að nota vettvangsferðir sem leið til að kenna börnum náttúrufræði og njóta og upplifa náttúruna og læra af henni. Hann sagði að við værum hluti af náttúrunni og náttúran væri hluti af okkur (Cornell, 1989).