Karellen

Tjarnarsel er elsti leikskóli Reykjanesbæjar og tók til starfa 18. ágúst 1967. Hann er staðsettur í hjarta bæjarins steinsnar frá Ráðhúsi Reykjanesbæjar og skrúðgarðinum.

Árið 1954 réðust kvenfélagskonur í Keflavík í að byggja dagheimili og félagsheimili sem þær nefndu Tjarnarlund. Var þetta fyrsta dagheimilið í Keflavík.
Árið 1967 afhentu kvenfélagskonur Keflavíkurbæ lóð til eignar undir annan leikskóla sem nefndur var Tjarnarsel og hófst starfsemin þar 1967. Bærinn keypti síðan Tjarnarlund af kvenfélaginu árið 1983 undir rekstur leikskóla. Fram til ársins 2000 fór starfsemin fram í tveimur húsum. Árið 1999 var ráðist í að byggja tengibyggingu á milli húsanna, í dag fer öll starfsemi fram undir sama þaki.
Tjarnarsel er fjögurra deilda leikskóli. Deildirnar eru aldursskiptar í 2ja, 3ja, 4ra og 5 ára. Þær heita Mánavellir (2ja ára), Sólvellir (3ja ára), Ljósvellir (4ra ára), og Sunnuvellir (5 ára). Miðað er við að um sumarfrí ár hvert færist öll börn ásamt kennurum yfir á næstu aldursdeild.
Áhersluþættir leikskólans eru vettvangsferðir, umhverfismennt, útinám, mál og læsi. Jafnframt er lögð áhersla á fjölbreyttan efnivið til listsköpunar og kubba af öllum stærðum og gerðum. Leikskólinn hefur fimm sinnum tekið við Grænfánanum sem er viðurkenning Landverndar fyrir umhverfismennt í skólum. Hugmyndafræði leikskólans einkennist af því að allt nám geti farið fram í gegnum leik, jafnt innan veggja hans sem utan. Kenningar John Dewey liggja til grundvallar ásamt fleiri fræðimönnum og kennismiðum og má þar helsta telja Lev Vigotsky, Ingrid Pramling og Josep Cornell.


© 2016 - 2023 Karellen