Karellen
news

Litla fólkið og stóru draumarnir

20. 01. 2022

Bókaflokkur sem kallast Litla fólkið og stóru draumarnir eftir Mariu I.S.Vegara sem allir leik- og grunnskólar landsins fengu að gjöf fyrir áramótin segja sögu merkra einstaklinga, allt frá hönnuðum til vísindafólks, sem hafa afrekað stórkostlega hluti en voru eitt sinn börn sem áttu sér stóra drauma.

Bókin um David Attenborough vakti mikla eftirtekt hjá elstu börnum skólans. Þau heillast af áhuga hans á náttúrufræði og hafa í kjölfarið kynnt sér steingervinga.

Til að fræðast enn frekar var leitað til föður eins barnsins á deildinni, sem er jarðfræðingur og lánaði hann okkur steingervinga, meðal annars ammonshorn (ammoníta) sem líkjast hrútshornum.

Fegurð steingervinganna skilaði sér inn í listsköpun þar sem leikið var með mismunandi form þeirra og mynstur. Orðin náttúruvísindi, náttúru- og jarðfræðingur bættust við orðaforða barnanna sem og steingervingar og ammonshorn. Þessi orð tilheyra svokölluðu þriðja og efsta lagi orðaforðans og eru gott dæmi um orðanám í tengslum við ákveðin verkefni eða þema.

Í framhaldinu verða teknar fyrir bækurnar um Marie Curie, Matrin Luther King, Rosa Parks, Steve Jobs og Malala Yousafzai sem svo sannarlega mun leiða fróðleiksfús börn á ókunnar slóðir

© 2016 - 2022 Karellen