Mikið er unnið með Orðaspjallsaðferðina í Tjarnarseli. Markmið hennar er að auka orðaforða barna og hlustunarskilning.
Hér langar okkur að deila með ykkur skemmtilegu dæmi af orðaforðavinnu í skólanum. Kennari á elstu deild las um daginn bókina um Draumálfinn Dísu eftir Sædísi Sif Jónsdóttur. Börnin hrifust mjög af sögunni og teikningum bókarinnar sem eru mjög litríkar. Í sögustundinni hafði kennarinn bangsaútgáfu af álfastelpunni Dísu meðferðis. Kennarinn lagði inn setninguna að "trúa og treysta á sjálfan sig" úr bókinni.
Eftir umræður í hópnum um merkingu þessara orða, skoðuðu börnin bangsann og svo fóru tvær stúlkur úr hópnum í sjálfsprottinn leik með Dísu. Þær stilltu henni upp við vegg og „lásu“ svo bókina fyrir bangsann.
Hluti af barnahópnum fór að teikna í listakrók og þegar kennarinn sá að eitt barnanna var að teikna Dísu greip hann tækifærið og sótti loðtöflusöguna sem hann hafði búið til upp úr sögunni og lagði á borðið í listakróknum. Börnin handfjötluðu myndirnar og út frá þeim skapaðist mikil umræða um ævintýri sögupersónunnar.