news

Skipulagsdagur

13. 02. 2020

Síðastliðinn föstudag var skipulagsdagur í Tjarnarseli. Dagskráin var þétt skipuð eins og alltaf á slíkum dögum, þar sem viska og fróðleikur flæðir yfir bakka sína.

Farið var yfir hvað einkennir góðan starfsanda, heilsuteymi skólans fór yfir áherslur næstu mánaða í heilsueflingu innan skólans, þema og vinnulag í tengslum við Listahátíð barna í vor var rætt og kynnt voru erasmus og e-twinning samstarfsverkefni sem eru í deiglunni. Einnig voru haldnir góðir deildarfundir og kynntar áherslur næstu mánaða í markvissri málörvun tvítyngdra barna.

Bæjarstjórinn ásamt aðstoðarmanni sínum og fræðslustjóra Reykjanesbæjar litu svo við í heimsókn og fluttu okkur góðar fréttir af bæjarmálunum og starfsfólk gat spurt spurninga og komið ábendingum til þeirra. Það var að sjálfsögðu gott og gagnlegt.

Síðdegis fengu kennarar svo verklega fræðslu og innblástur fyrir ræktun sumarblóma og kryddjurta sem er að hefjast um þessar mundir í leikskólanum. Þá lærðu kennarar að búa til umhverfisvæna blómapotta úr dagblöðum og spreyttu sig á sáningu ólíkra jurta.
Eins og lesa má úr svipbrigðum á meðfylgjandi mynd, hafa kennarar mismikla trú á garðálfinum í sjálfum sér en við erum bjartsýnisfólk og vitum að ólíklegustu hlutir gerast í heimi hér
:)

Vorið lék því um huga og sálir starfsfólksins þegar degi lauk, enda von á uppskeru í víðum skilningi að loknum innihaldsríkum degi.

© 2016 - 2022 Karellen